„Ísland mun senda annan andísraelskan fulltrúa í Eurovision,“ er fyrirsögn greinar sem birtist á ísraelska vefmiðlinum Jerusalem Post í dag. Þar er því haldið fram að framlag Íslands til keppninnar í ár, lagið Think About Things með Daða og Gagnamagninu sé and-ísraelskt, þar sem Daði kallaði eftir því að Ísland sniðgengi Eurovision, sökum þess að keppnin var haldin í Ísrael.
„Við getum ekki ímyndað okkur að taka þátt í Eurovisiongleðinni með góðri samvisku á meðan Ísraelsríki og þeirra her beitir Palestínumenn hrottalegu ofbeldi í næsta nágrenni,“ skrifaði Daði Freyr á Facebook-síðu sína í maí 2018, þegar ljóst var að keppnin yrði haldin í Ísrael ári síðar.
„Þátttöku íslensku sveitarinnar Hatara í Eurovision 2019 er minnst fyrir andísraelskar yfirlýsingar þeirra og þegar þeir sýndu palestínskan fána. Eitthvað sem þeir voru sektaðir fyrir af Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva,“ segir í greininni.
Þá er einnig greint frá því að Hatari hafi stigið á stokk á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar sem fram fór í gær.
„Ísland og Ísrael geta aðeins keppt hvort við annað á úrslitakvöldinu, þar sem þau eru sett sitt á hvort undankvöldið,“ segir í lok greinarinnar.