Níu heilsugæslustöðvar, tvö sjúkrahús og tvær sjúkradeildir, auk sjúkraflutninga eru starfandi á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Hjá stofnuninni vinna 550 manns.
Mikið álag er á öllum vegna Covid 19 veirunnar og nú hefur verið opnuð sérstök lokuð deild á sjúkrahúsinu fyrir allt sem við kemur veirunni.
„Við settum þessa deild upp í gær, sem varúðarráðstöfun. Núna er það þannig að allir, sem veikjast og eru í meðferð leggjast inn á Landsspítalann en þetta er meira hjá okkur að hafa deildina ef að illa fer og við þurfum að taka á við sjúklingum, það yrði kannski ófært og við kæmum þeim ekki inn á Landsspítala. Á deildinni er líka verið að undirbúa vinnuna fyrir sýnatöku og annað“, segir Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Pláss er fyrir fimm sjúklinga á deildinni.Tveir starfsmenn stofnunarinnar, sem starfa á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum eru smitaðir og nokkrir komnir í sóttkví.

„Já, þetta er pakki til að takast á við, ekki bara hjá mér heldur í öllum heilbrigðisgeiranum. Mér líst nú þannig á þetta að það ríkir óvissuástand, við vitum í sjálfum sér ekki hvað bíður okkar. En við höfum bara gert ráðstafanir og við fylgjum tilmælum sóttvarnarlæknis. Ég hef fulla ástæðu til að vera bjartsýn og ég veit það það birtir til aftur,“ segir Díana.