Körfubolti

Giannis í hóp með Jordan, Olajuwon, Garnett og Robinson

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giannis Antetokounmpo er fyrsti leikmaður Milwaukee Bucks í 36 ár sem er valinn varnarmaður ársins í NBA.
Giannis Antetokounmpo er fyrsti leikmaður Milwaukee Bucks í 36 ár sem er valinn varnarmaður ársins í NBA. getty/Ashley Landis

Giannis Antetokounmpo, leikmaður Milwaukee Bucks, fékk yfirburðakosningu í valinu á besta varnarmanni NBA-deildarinnar í körfubolta.

Mike Budenholzer tilkynnti Antetokounmpo þetta að viðstöddum leikmönnum og starfsfólki Milwaukee á mánudaginn. Í gær gaf NBA-deildin það svo formlega út að Grikkinn hefði verið valinn varnarmaður ársins.

Antetokounmpo fékk 432 stig í kjörinu. Anthony Davis, leikmaður Los Angeles Lakers, kom næstur með 200 stig. Rudy Gobert, miðherji Utah Jazz, varð í 3. sæti með 187 stig en hann var valinn varnamaður ársins 2018 og 2019.

Antetokounmpo átti hvað stærstan þátt í að Milwaukee var með besta varnarlið NBA í vetur. Hann tók 13,6 fráköst að meðaltali í leik og mótherjar Milwaukee voru aðeins með 36,3 prósent skotnýtingu þegar Antetokounmpo var næsti varnarmaður við þá.

Gríski landsliðsmaðurinn er aðeins annar leikmaður Milwaukee sem er valinn varnarmaður ársins í NBA. Sidney Moncrief var sá fyrsti til að hljóta verðlaunin tímabilið 1982-83. Hann fékk þau aftur tímabilið 1983-84.

Antetokounmpo var valinn verðmætasti leikmaður NBA á síðasta tímabili (MVP). Hann er aðeins sá fimmti í sögu deildarinnar sem er bæði valinn verðmætasti leikmaður NBA og besti varnarmaðurinn. Hinir fjórir eru Michael Jordan, Hakeem Olajuwon, Kevin Garnett og David Robinson.

Jordan og Olajuwon eru þeir einu sem hafa verið valdir verðmætasti leikmaður NBA og besti varnarmaðurinn á sama tímabilinu. Antetokounmpo bætist væntanlega í þann hóp en yfirgnæfandi líkur er á að hann verði valinn verðmætasti leikmaður tímabilsins 2019-20.

Antetokounmpo og félagar í Milwaukee mættu ekki til leiks gegn Orlando Magic í kvöld í mótmælaskyni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×