Erlent

Táningur handtekinn vegna mannskæðrar skotárásar eftir mótmælin

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla er með mikinn viðbúnað í Kenosha.
Lögregla er með mikinn viðbúnað í Kenosha. AP Photo/Morry Gash

Lögregla í Kenosha í Wisconson-ríki Bandaríkjanna hefur handtekið 17 ára ungling í tengslum við skotárás sem varð tveimur að bana. Mikil mótmæli fóru fram í Kenosha í nótt og var það þriðja nóttin í röð sem slíkt gerist

Tilefni mótmælanna er að lögregluþjónn skaut svartan mann ítrekað í bakið fyrr í vikunni. Mennirnir tveir sem létust urðu fyrir skothríð sem hófst eftir að til átaka kom á milli mótmælenda og vopnaðra manna sem sögðust vera að verja bensínstöð.

Í frétt CNN segir að lögregla hafi gefið út ákæru á hendur táningnum sem handtekinn var í tengslum við málið, en lögregla segir ljóst að hann hafi beitt skotvopni til þess að reyna að leysa þeir deilur sem upp komu á bensínstöðinni.

Mótmælin í gær áttu sér að mestu stað við dómshús Kenosha. Mótmælendur voru þó reknir á brott með táragasi og gúmmíkúlum.

Að endingu fóru margir mótmælendur en aðrir enduðu hjá bensínstöð skammt frá dómshúsinu. Þar var fyrir hópur vopnaðra manna sem sögðust vera að verja bensínstöðina. Til deilna kom á milli mótmælenda og mannanna sem enduðu með skothríð.

Mótmælin eru sem fyrr segir komin til vegna þess að lögregla skaut Jacob Blake, með þeim afleiðingum að hann er lamaður fyrir neðan mitti.

Myndbönd af vettvangi sýna að Blake lenti í stympingum við lögregluþjóna og á einum tímapunkti kallaði lögregluþjónn á Blake að sleppa hníf. Vitni segjast þó ekki hafa séð hníf og enginn hnífur er sjáanlegur á myndböndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×