Icelandair hefur gert samstarfssamning við breska flugfélagið easyJet þess efnis að Icelandair gerist aðili að stafrænni bókunarþjónustu easyJet, Worldwide by easyJet.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. Þar segir að með Worldwide by easyJet geti „farþegar sjálfir bókað flug með easyJet og fjölmörgum samstarfsflugfélögum á sjálfvirkan og einfaldan hátt og þannig aukið möguleika á tengiflugi til fjölda áfangastaða um allan heim.“
Áætlað er að þjónustan verði virk á næstu vikum og þegar markaðsaðstæður leyfa en ferðalög fólks á milli landa hafa verið í algjöru lágmarki undanfarin misseri vegna kórónuveirufaraldursins og þeirra ferðatakmarkana sem honum hafa fylgt.
Þegar þjónustan verður virk munu viðskiptavinir geta bókað flug frá áfangastöðum easyJet í Evrópu og svo áfram inn í leiðakerfi Icelandair til áfangastaða bæði í Evrópu og Norður-Ameríku „í nánustu framtíð,“ líkt og það er orðað í tilkynningu Icelandair.
„Icelandair á nú þegar í samstarfi við önnur flugfélög á borð við SAS, Finnair og airBaltic í Evrópu og Jetblue og Alaska Airlines í Bandaríkjunum. Worldwide by easyJet tengir saman yfir 5 þúsund flugleiðir víða um heim með öflugu neti 17 samstarfsflugfélaga. Sem leiðandi flugfélag í Evrópu, flutti easyJet 96,1 milljón farþega á árinu 2019,“ segir í tilkynningu Icelandair.