Erlent

Tuga saknað vegna eldanna í Oregon

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Tugir þúsunda hafa þurft að yfirgefa heimili sín í Oregon, og víðar, vegna eldanna.
Tugir þúsunda hafa þurft að yfirgefa heimili sín í Oregon, og víðar, vegna eldanna. Kevin Jantzer/AP

Yfirvöld í Oregon-ríki í Bandaríkjunum segja að tuga fólks sé saknað vegna skógar- og gróðureldanna sem loga glatt í ríkinu. Eldar loga einnig í fleiri ríkjum, en hvað mest í Kaliforníu og Washington. Tugir þúsunda hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna ástandsins.

Andrew Phelps, yfirmaður almannavarna í Oregon segir stofnunina hafa búið sig undir að eldarnir gætu orðið mörgum að bana. Minnst fernt hefur látist í Oregon og ellefu annars staðar. Alls loga hundrað aðskildir eldar í 12 ríkjum Bandaríkjanna.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir Kate Brown, ríkisstjóra Oregon, að í gær hafi lögregla haft á borði sínu tilkynningar um tugi fólks sem væri saknað vegna eldanna, þá sérstaklega í þremur sýslum, Jackson, Lane og Marion.

Þá sagði hún frá því að 40.000 íbúum ríkisins hefði verið gert að yfirgefa heimili sín. Eins og staðan er telja yfirvöld að eldarnir hafi áhrif á um hálfa milljón íbúa Oregon, en þar búa hátt í tvær og hálf milljón manna.

Veðrið hjálpar til

Doug Grafe, yfirmaður hjá slökkviliðinu í Oregon, sagði í gær að slökkviliðsmenn í ríkinu berðust við 16 stóra, aðskilda elda. Hann bætti þó við að lækkandi hitastig og aukinn raki í lofti hjálpaði til við að ráða niðurlögum eldanna.

Minnst eitt bál í ríkinu, sem valdið hefur hvað mestum skaða, í Almeida-sýslu er rannsakað sem íkveikja. Tvennt er talið hafa látist og hundruð heimila skemmst vegna eldsins.

Í gær var 41 árs maður handtekinn vegna gruns um að hafa kveikt eld. Hann er þó ekki talinn hafa kveikt eldinn í Almeida.

Reykmengun vegna eldanna hefur gert það að verkum að Portland, stærsta borg Oregon, mælist nú með verstu loftgæði allra borga heims. Þar á eftir koma San Francisco í Kaliforníu og Seattle í Washington.


Tengdar fréttir

Stór hluti bæjar brann til kaldra kola

Íbúar bæjarins Phoenix í Oregon í Bandaríkjunum eru agndofa eftir að stór hluti bæjarins brann til kaldra kola í einum þeirra fjölmörgu gróðurelda sem loga á Vesturströnd Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×