Handbolti

Lá fyrir í rúma viku eftir komuna til landsins en á að vera klár fyrir grannaslaginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zandra Jarvin hefur leikið með yngri landsliðum Svíþjóðar.
Zandra Jarvin hefur leikið með yngri landsliðum Svíþjóðar.

FH-ingar vonast til að sænski leikstjórnandinn Zandra Jarvin geti leikið gegn Haukum í 2. umferð Olís-deildar kvenna á laugardaginn. Hún hefur glímt við veikindi síðan hún kom til landsins.

Zandra er ekki enn komin með leikheimild með FH. Að sögn Ásgeirs Jónssonar, formanns handknattleiksdeildar FH, var beðið það með þar sem ljóst var að Zandra myndi ekki ná að spila leikinn gegn Stjörnunni í 1. umferð Olís-deildarinnar á föstudaginn. FH tapaði leiknum, 29-21.

„Hún hefur verið veik meira og minna frá því hún kom til landsins og lá fyrir í tíu daga. Hún kom bara á æfingu daginn fyrir fyrsta leik. Ljóst var að hún myndi ekki spila þennan fyrsta leik og þannig að við hinkruðum með þessa leikheimild og vorum ekkert að stressa okkur á því,“ sagði Ásgeir í samtali við Vísi í dag.

Zandra kom til landsins um miðjan ágúst, fór beint í sóttkví og lék svo með FH á Opna Norðlenska æfingamótinu á Akureyri. Síðan veiktist hún.

„Hún lá kylliflöt í einhverja tíu daga með flensu. Það er ástæðan fyrir því að hún var ekki með gegn Stjörnunni. Hún mætti á æfingu daginn fyrir Stjörnuleikinn en var eðlilega ekki hress,“ sagði Ásgeir sem á von á því að Zandra spili með FH í grannaslagnum gegn Haukum á laugardaginn. Leikurinn hefst klukkan 14:45 á Ásvöllum og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Zandra, sem er tvítug, kom til FH frá Spårvägen í Svíþjóð. Hún hefur leikið með yngri landsliðum Svía.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×