Það hefur ekki gengið sem skildi hjá Víkingi í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu. Liðið stefndi á Íslandsmeistaratitilinn en situr í níunda sæti deildarinnar, átta stigum frá fallsæti.
Eftir bikarmeistaratitilinn á síðasta ári og með breyttum, skemmtilegum fótbolta undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar voru Víkingar spenntir fyrir komandi tímabili.
Gengið hefur hins vegar ekki verið upp á marga fiska og hefur liðið einungis unnið þrjá sigra í þeim fjórtán umferðum sem spilaðar hafa verið. Liðið hefur gert sex jafntefli og tapað fimm leikjum.
Liðið hefur ekki unnið í síðustu átta deildarleikjum; fjögur jafntefli og fjögur töp. Síðasti sigurleikur liðsins kom gegn ÍA 19. júlí og eru rúmir tveir mánuðir síðan; nánar tveir mánuðir og þrír dagar.
Það er spurning hvort að Víkingarnir nái að vinna sinn fyrsta leik í rúma tvo mánuði er liðið mætir Fylki í Árbænum á fimmtudaginn. Þar verða þeir þó án Óttars Magnúsar Karlssonar sem er farinn í atvinnumennsku.