Handbolti

Hrafnhildur Anna fyrst allra til að ná fullkomnum leik á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir varði frábærlega á móti KA/Þór en það dugði þó ekki til.
Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir varði frábærlega á móti KA/Þór en það dugði þó ekki til. Skjámynd/Fésbókarsíða FH

FH-ingurinn Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir varð fyrsti leikmaðurinn á þessu tímabili í Olís deild karla eða kvenna til að fá tíu í einkunn hjá HB Statz.

Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir átti stórleik með FH-liðinu á móti KA/Þór á laugardaginn og frammistaða hennar skilaði henni tíu í einkunn.

Hrafnhildur Anna varði 21 af 42 skoti sem komu á hana eða 50 prósent skotanna. Hún varð þar af 2 af 6 vítum sem hún reyndi við. Hrafnhildur Anna skoraði líka eitt mark í leiknum.

Frábær frammistaða Hrafnhildar Önnu dugði þó ekki til í leiknum því gestirnir að norðan unnu leikinn með tveimur mörkum. 21-19. FH-liðið er stigalaust eftir þrjá leiki en FH-stelpurnar hafa samt verið í jöfnum leikjum í undanförnum tveimur umferðum.

Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir verður ekki tvítug fyrr en í desember en hún er á sínu fyrsta tímabili í efstu deild. Hrafnhildur Anna hefur spilað með FH-liðinu í b-deildinni undanfarin fjögur tímabil.

Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir hefur varið fleiri víti (3) en allir markverðir Olís deildar kvenna til þessa og aðeins einn markvörður hefur varið fleiri skot. Hrafnhildur Anna hefur alls varið 41 skot eða 39 prósent skot sem hafa komið á hana.

Hrafnhildur Anna er hins vegar eini markvörðurinn sem hefur bæði skorað sjálf mark og gefið stoðsendingu í þremur fyrstu umferðunum í Olís deild kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×