Íslenska CrossFit drottningin Anníe Mist Þórisdóttir var létt og kát í nýjustu færslu sinni en þar fór hún yfir hvernig gengur hjá henni í endurkomunni inn á keppnisgólfið í CrossFit íþróttinni.
Anníe Mist Þórisdóttir lenti á smá vegg á dögunum þegar henni fannst ekki hlutirnir ganga eins hratt og hún vonaðist til. Hún vildi ekki fela neitt fyrir fylgjendum sínum og sagði á hreinskilinn hátt hvað hún var að ganga í gegnum.
Það er mun bjartara yfir nýjustu færslu Anníe Mistar þar sem hún sést skælbrosandi og búin að svitna mikið á góðri æfingu.
„Það er eins og ég sé að byrja aftur upp á nýtt. Ég sé framfarir á næstum því hverjum degi sem er mjög hvetjandi,“ skrifaði Anníe Mist Þórisdóttir í færslu sinni á Instagram.
Anníe Mist sagði jafnframt frá því að hraðinn hennar á æfingahjólinu er alltaf að aukast. Æfingin sem hún gerir er sjö sinnum 1600 metrar á C2 hjóli þar sem hún eykur hraðann við hverja 400 metra.
„Ég elska þessar æfingar þar sem þú hefur bara 400 metra til að hugsa þig um. Ef þú gerir þessa æfingu í róðravél þá ættir þú að auka hraðann á 800 metra fresti,“ skrifaði Anníe Mist sem birti líka mynd af hraðaaukningu sinni.