Breskir bar- og næturklúbbaeigendur segjast ætla að fara í mál við ríkið verði frekari takmarkanir eða lokanir slíkra staða að veruleika, en Bretar berjast nú við mikla aukningu kórónuveirusmita, ekki síst í norðanverðu landinu.
Samtök bar- og næturklúbbaeigenda, sem leidd eru af Manchesterbúanum Sacha Lord, segja lögfræðinga sína í starholunum verði reglurnar hertar enn frekar. Rekstraraðilarnir ætla þá að krefjast þess fyrir dómi að sýnt verði fram á það með vísindalegum rökum að slíkar aðgerðir hafi raunveruleg áhrif til að stemma stigu við faraldrinum.
Veitingamenn á Bretlandseyjum hafa þegar tapað stórum fjárhæðum í faraldrinum, rétt eins og kollegar þeirra víðast hvar annarsstaðar og er talið að frekari lokanir í geiranum gætu leitt til þess að hundruðir þúsunda starfa muni tapast.