Karl Óskar Agnarsson, einn harðasti KR-ingur landsins, er látinn 68 ára gamall. Karl Óskar þekkja allir sem hafa sótt kappleiki í vesturbænum undanfarna áratugi. Hann tók vel á móti fólki, með traustu handabandi, og ljóst að KR átti hug og hjarta hans.
Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður KR, minnist Kalla í pistli á heimasíðu KR.
„Kalli var einn af okkar dyggustu stuðningsmönnum og sjálfboðaliðum. Í mörg ár sá hann um vallarklukkuna þegar strákarnir og stelpurnar voru að spila. Alltaf mættur löngu fyrir leiki, tók á móti okkur fagnandi sem voru að mæta á leiki, gjarnan með liðsuppstillinguna tilbúna á blaði til að sýna manni,“ segir Gylfi í pistli sínum.
Kalli var oftar en ekki mættur í dyragættina til að taka við miðum þegar körfuknattleikslið félagsins spiluðu leiki.
„Einnig var hann dyggur stuðningsmaður Píluvina KR og lét sig ekki vanta á viðburði Pílunnar. Hann tók líka þátt í getraunastarfi KR í gegnum tíðina,“ segir Gylfi.
„Við KR-ingar minnumst Kalla með miklu þakklæti fyrir allt sem hann gerði fyrir gamla góða KR og þökkum honum samfylgdina í gegnum tíðina. KR-ingar senda ættingjum Kalla innilegar samúðarkveðjur.“