Erlent

Herða tak­markanir í Osló

Atli Ísleifsson skrifar
Alls hafa tæplega 18 þúsund manns greinst með kórónuveirusmit frá upphafi faraldursins.
Alls hafa tæplega 18 þúsund manns greinst með kórónuveirusmit frá upphafi faraldursins. EPA

Borgaryfirvöld í norsku höfuðborginni Osló hafa tilkynnt um hertar samkomutakmarkanir vegna heimsfaraldursins. Nýjar reglur og tilmæli voru kynntar á blaðamannafundi borgarstjórans Raymond Johansen í hádeginu og munu taka gildi á fimmtudag.

Yfirvöld hafa með þessu bæði framlengt og í sumum tilvikum hert þær takmarkanir sem fyrir voru. „Þegar við komum á þessum takmörkunum þá héldum við að þær myndu skila árangri með tímanum. Smitfjöldinn hefur verið nokkuð stöðug síðan í september, en nú hefur hann aukist aftur, þrátt fyrir takmarkanirnar,“ sagði Johansen.

Því er nú beint til íbúa að eiga ekki í samskiptum við fleiri en tíu manns utan heimilisins yfir vikulangt tímabil. Grímuskyldu er komið á á opinberum stöðum innandyra þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð milli fólks. Þá skuli fólk einnig nota grímu innandyra á veitingahúsum þar sem ekki er setið við borð. Reglurnar gilda sömuleiðis um starfsfólk.

Í nýjum reglum kemur einnig fram að veitingahúsum sé meinað að hleypa inn nýjum gestum eftir klukkan 22. Þá miðast samkomubann við tuttugu manns á viðburðum innandyra þar sem ekki eru föst sæti fyrir gesti.

Borgarstjórinn hvatti fólk einnig til að vinna að heima væri sá möguleiki fyrir hendi og þá er því beint til skóla og háskóla að notast við fjarkennslu eins og hægt er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×