Erlent

Dag­legum Co­vid-dauðs­föllum í Evrópu fer fjölgandi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þessi mynd er tekin á lestarstöð í París, höfuðborg Frakklands. Kórónuveirutilfellum hefur farið hratt fjölgandi í landinu, líkt og víða annars staðar í Evrópu.
Þessi mynd er tekin á lestarstöð í París, höfuðborg Frakklands. Kórónuveirutilfellum hefur farið hratt fjölgandi í landinu, líkt og víða annars staðar í Evrópu. Julien Mattia/Anadolu Agency via Getty

Daglegum dauðsföllum sem rekja má til Covid-19 hefur fjölgað um hátt í 40% milli vikna í Evrópu. Þetta hefur breska ríkisútvarpið eftir talsmanni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. (WHO).

Dr. Margaret Harris, talsmaður WHO, segir að daglegum nýgreiningum veirunnar í Frakklandi, Bretlandi, Hollandi, Rússlandi og á Spáni hefði fjölgað um þriðjung milli vikna. Sagði hún það áhyggjuefni að gjörgæsludeildir spítala víða um álfunna væru nú að fyllast af mjög veiku fólki.

„Yfir Evrópu sjáum við mjög skarpa og hættulega aukningu í dauðsföllum og nýgreindum einstaklingum,“ hefur BBC eftir Harris. Hún segir þá að áhrif þeirra hertu samfélagslegu aðgerða sem gripið hefur verið til í fjölda ríkja muni ekki koma í ljós fyrr en að tveimur vikum liðnum.

„Það mun draga úr tíðni nýgreindra, en það gerist ekki á einni nóttu.“

Önnur bylgja frábrugðin þeirri fyrstu

Þegar Harris var spurð hvort önnur bylgja veirunnar, sem nú ríður yfir Evrópu, yrði verri en sú fyrsta sagði hún að áhrifin yrðu annars konar.

„Góðu fréttirnar eru þær að spítalar eru nú betur í stakk búnir og búa yfir meiri þekkingu á því sem er í gangi. Hin hliðin á sama pening er sú að unnið hefur verið hörðum höndum ótrúlega lengi og þeir [heilbrigðisstarfsmenn] vita að það sem er fram undan verður erfitt.“

Hún sagði þá að þeir hópar sem væru að veikjast í Evrópu væru yngri en í fyrstu bylgjunni. Því mætti leiða líkum að því að fólk sem tilheyrir þeim hópi yrði ekki jafn veikt. Það væri þó alls ekki öruggt.

„Þessir þættir benda til þess að við munum ekki sjá jafn hræðilega fjölgun dauðsfalla líkt og í apríl,“ sagði Harris.


Tengdar fréttir

Staðan í Evrópu geti versnað hratt

Dagleg dauðsföll af völdum Covid-19 í Evrópu eru um fimm sinnum færri en þau voru í fyrstu bylgju faraldursins í mars og apríl. Yfirmaður WHO í Evrópu segir þrátt fyrir það að ekki sé tilefni til bjartsýni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×