Íslenski boltinn

Bestu og efnilegustu leikmennirnir verða valdir þrátt fyrir óvenjulegt tímabil

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Líklegt verður að teljast að besti leikmaður Pepsi Max-deildar kvenna komi úr röðum Íslandsmeistara Breiðabliks.
Líklegt verður að teljast að besti leikmaður Pepsi Max-deildar kvenna komi úr röðum Íslandsmeistara Breiðabliks. vísir/hulda margrét

Þótt ekki hafi verið hægt að klára Íslandsmótið í fótbolta verða bestu og efnilegustu leikmenn efstu deilda karla og kvenna verðlaunaðir eins og venjulega. Það eru leikmenn deildanna sem kjósa bestu og efnilegustu leikmennina.

„Þetta verður valið með hefðbundnum hætti en það er ekki búið að stilla þessu upp,“ sagði Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, í samtali við Vísi.

Enn á eftir að kjósa og ekki liggur fyrir hvenær verðlaunin fyrir bestu og efnilegustu leikmennina verða veitt. KSÍ mun einnig verðlauna markahæstu leikmenn Pepsi Max-deildanna.

Í Pepsi Max-deild karla var Steven Lennon, leikmaður FH, markahæstur með sautján mörk. Valsmaðurinn Patrick Pedersen (15 mörk) og Blikinn Thomas Mikkelsen (13 mörk) komu næstir. Í Pepsi Max-deild kvenna voru Blikarnir Agla María Albertsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir markahæstar með fjórtán mörk hvor. Elín Metta Jensen úr Val skoraði þrettán mörk.

Í fyrra voru Óskar Örn Hauksson (KR) og Elín Metta valin bestu leikmenn Pepsi Max-deildanna. Finnur Tómas Pálmason (KR) og Hlín Eiríksdóttir (Val) voru valin efnilegust.

Fjórum umferðum var ólokið í Pepsi Max-deild karla og tveimur í Pepsi Max-deild kvenna þegar Íslandsmótið var blásið af á föstudaginn.


Tengdar fréttir

Keppni á Íslandsmótinu í knattspyrnu hætt

Knattspyrnusamband Íslands greindi frá því nú rétt í þessu að keppni á Íslandsmótinu í knattspyrnu yrði hætt. Var þetta samþykkt á fundi sambandsins nú í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×