Fótbolti

Ítalía kláraði Svíþjóð og strákarnir okkar líklegast komnir á EM

Anton Ingi Leifsson skrifar
Íslendingar fagna sigurmarkinu sem Valdimar Þór Ingimundarson skoraði gegn Írum í síðustu viku.
Íslendingar fagna sigurmarkinu sem Valdimar Þór Ingimundarson skoraði gegn Írum í síðustu viku. Getty/Harry Murphy

Íslenska landsliðið í fótbolta, skipað leikmönnum 21 árs og yngri, er að öllum líkindum komið á Evrópumótið sem fer fram á næsta ári.

Þetta varð staðfest að Ítalir unnu 4-1 sigur á Svíum og endar því íslenska liðið í öðru sætinu, fari að svo að Ísland verði dæmdur sigur gegn Armeníu í leik sem var frestað á dögunum. Allar líkur eru á að svo verði dæmt.

Fimm bestu liðin sem enda í 2. sæti í undankeppninni fá sæti á Evrópumótinu sem fer fram í Ungverjalandi og Slóveníu á næsta ári.

Síðast þegar Ísland fór í úrslitakeppni EM U21 var þegar Gylfi Þór Sigurðsson, Birkir Bjarnason og fleiri spiluðu fyrir Íslands hönd á EM 2011 þegar það fór fram í Danmörku.

Þá var íslenska liðið einungis einu marki frá því að komast áfram í undanúrslitin en tvö efstu liðin í hvorum riðli fyrir sig fóru áfram.

Keppnin á næsta ári fer fram með nokkuð öðruvísi sniði. Leikið verður undankeppni í mars og útsláttarkeppnin hefst ekki fyrr en 31. maí.

Arnar Þór Viðarsson er þjálfari U21 árs landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×