Erlent

250 þúsund manns látist vegna Covid-19 í Bandaríkjunum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Hvergi í heiminum hafa fleiri greinst með kórónuveiruna en í Bandaríkjunum og hvergi hafa fleiri látist vegna Covid-19.
Hvergi í heiminum hafa fleiri greinst með kórónuveiruna en í Bandaríkjunum og hvergi hafa fleiri látist vegna Covid-19. Getty/Mario Tama

Nú hafa 250 þúsund manns dáið af völdum Covid-19 í Bandaríkjunum frá upphafi faraldursins en þetta staðfesta nýjar tölur frá John Hopkins-háskólanum þar í landi. Veiran virðist því vera á fullu skriði í landinu.

Rúmlega ellefu og hálf milljón Bandaríkjamanna hefur smitast af kórónuveirunni og eru Bandaríkin það ríki heims þar sem flestir hafa smitast og flestir látið lífið.

Í síðustu viku féllu met yfir fjölda daglegra smita í landinu og sagði Dr. Anthony Fauci sóttvarnalæknir að landið væri á rangri leið á hættulegum tíma, enda kólni nú víðast hvar og þá færi fólk sig inn í hús þar sem smithætta er enn meiri.

Í New York á að loka skólum frá deginum í dag en það hefur áhrif á líf 300 þúsund barna. Þá líður nú að þakkargjörðarhátíðinni þar vestra, sem er ein mesta ferðahelgi ársins í Bandaríkjunum, og hvetur Fauci fólk til að láta það vera að ferðast landshlutana á milli þetta árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×