Frumvarp var lagt fyrir rússneska þingið í dag sem gerði þarlendum stjórnvöldum kleift að takmarka aðgang að bandarískum samfélagsmiðlum væru þeir taldir mismuna rússneskum fjölmiðlum. Þingmenn stjórnarflokks Vladímírs Pútín forseta leggja frumvarpið fram vegna óánægju með hvernig miðlarnir hafa tekið á rússneskum ríkisfjölmiðlum.
Twitter greip til þess ráðs fyrr á þessu ári að merkja sérstaklega aðganga ríkisfjölmiðla, þar á meðal nokkurra rússneskra fjölmiðla eins og RT, RIA Novosti og Crimea 24. Rússnesk stjórnvöld mótmæltu því á sínum tíma.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að það liggi á að samþykkja það vegna „fjölda tilfella órökstuddra takmarkana á aðgang rússneskra borgara að upplýsingum í rússneskum fjölmiðlum af hálfu ákveðinna netfyrirtækja“, að því er kemur fram í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Dmitrí Peskov, talsmaður Pútín, segir leiðir til þess að glíma við vandamálið nauðsynlegar.
„Það er sannarlega mismunun gegn rússneskum viðskiptavinum þessarar þjónustu í gangi,“ fullyrti hann.
Verði frumvarpið að lögum gætu ríkissaksóknari og utanríkisráðuneyti Rússlands skilgreint hvaða netfyrirtæki takmarka aðgang að „samfélagslega mikilvægum upplýsingum á grundvelli þjóðernis, tungumáls eða í tengslum við refsiaðgerðir gegn Rússlandi eða borgurum þess“.