Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskip þar sem segir að hluthafar sem hafi átt samtals 20.175 hluti í félaginu hafi tekið yfirtökutilboði Samherja, eða sem nemur 0,011 prósent hlutafjár í félaginu.
Samherji mun því fara með 30,29 prósenta hlut í Eimskip eftir viðskiptin eða 31,32 prósent þegar leiðrétt hafi verið fyrir eigin hlutum líkt og það er orðað í tilkynningu til kauphallar.
Í október eignaðist Samherji Holding meira en 30 prósenta hlut í Eimskip. Var félaginu þá skylt samkvæmt lögum að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð.
Yfirtökutilboðið hljóðaði upp á 175 krónur á hvern hlut, jafnhátt hæsta verði sem Samherji Holding hafði greitt fyrir hluti í Eimskip á síðustu sex mánuðum áður en tilboðsskyldan myndaðist.

Gengi hlutabréfa í Eimskip hefur farið hækkandi undanfarnar vikur og stendur það nú í 229 krónur á hlut.
Í takt við væntingar eigenda Samherja Holding
Móttökur yfirtökutilboðsins virðast vera í takt við væntingar eigenda Samherja Holding. Þannig sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri félagsins, í samtali við Viðskiptablaðið í október að hann byggist við því að flestir hluthafar myndu ekki taka tilboðinu, líkt og varð raunin.
„Það var og verður áfram afstaða Samherja Holding að Eimskip sé vel til þess fallið að vera áfram skráð á almennan hlutabréfamarkað og við bindum vonir við að eiga áfram gott samstarf við aðra hluthafa félagsins,“ er haft eftir Þorsteini Má í tilkynningunni til kauphallar.