Skoðun

Afríka slapp ekki

Ragnar Schram og Hans Steinar Bjarnason skrifa

Fjölmiðlar á Íslandi og víðar á vesturlöndum hafa undanfarið fjallað um hversu vel Afríka hafi sloppið frá Covid-19 heimsfaraldrinum. Nýleg úttekt SOS Barnaþorpanna í austan- og sunnanverðri Afríku sýnir þó að ástandið er í raun grafalvarlegt og brothætt.

Smit- og dánartölur í Afríku eru vissulega lægri en víðast hvar annarsstaðar en þær eru nú aftur á uppleið og segja aðeins hálfa söguna um ástandið. Erfitt er fyrir Evrópubúa að setja sig í spor Afríkubúa. Tækni, samgöngur, menntun, rafmagn, heilsugæsla, aldurssamsetning og svo margt annað er afar ólíkt því sem þekkist á vesturlöndum. Efnahagur Afríku er heilt yfir brothættur og má ekki við miklum áföllum. Sóttvarnaraðgerðir yfirvalda hafa víðast hvar komið verulega illa niður á verslun, iðnaði og félagsþjónustu og fátækt er þegar farin að aukast á ný. Skólahald liggur víða niðri og börn eru farin að vinna til að hjálpa við tekjuöflun heimilanna. Óttast er að stór hluti þessara barna snúi ekki aftur í skóla.

12 ára stúlkur þungaðar

Eitt það átakanlegasta við niðurstöður úttektarinnar er aukið ofbeldi gegn konum og börnum á tímum faraldursins. Þunganir unglingsstúlkna frá 18 ára og allt niður í 12 ára aldur eru orðnar að öðrum faraldri. Í einni sýslu í Kenía var tilkynnt um fjögur þúsund þunganir stúlkubarna, eingöngu á tímabilinu mars til júní, og voru um 200 þessara stúlkna undir 14 ára aldri. Þetta á aðeins við um tilkynnt tilfelli en þau eru í raun mun fleiri. Gerendurnir eru langflestir tengdir stúlkunum fjölskylduböndum og stúlkurnar eru ólíklegar til að snúa aftur til náms. Þetta vandamál á einnig við um flest önnur Afríkuríki.

73% aukning á heimilisofbeldi

Einnig er sláandi að sjá tölur yfir annað kynferðisofbeldi gegn konum á svæðinu sem úttektin náði til. 73% þeirra kvenna sem rætt var við búa við aukið ofbeldi af hálfu maka. 51% eru þolendur kynferðisofbeldis á heimilinu. 21% verða fyrir áreiti við vatnsstöðvar og 32% aukning er á þvinguðum barnagiftingum stúlkna.

Nú þegar nálgast árslok er önnur bylgja í kortunum á sama tíma og fátækt er að aukast á ný og ofbeldi gegn konum og börnum er í veldisvexti. Í fjarlægð hafa margir andað léttar fyrir hönd Afríku en við höfum ekki efni á því. Afríka er ekki sloppin. Þetta er ekki búið.

Nánar má lesa um þessa úttekt á heimasíðu SOS Barnaþorpanna á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Skoðun

Þúsundir kusu Sönnu

Anna Bentína Hermansen Einarsdóttir,Ármann Hákon Gunnarsson,Baldvin Björgvinsson,Brynja Guðnadóttir,Haraldur Ingi Haraldsson,Jón Hallur Haraldsson,Kolbrún Erna Pétursdóttir,Ólafur H. Ólafsson,Rakel Hildardóttir,Sigrún Jónsdóttir skrifar

Sjá meira


×