Þetta er niðurstaða Landsréttar í máli sem hófst þegar Bitter ehf. og þrotabúið tókust á um stólana sem fjarlægðir voru úr húsnæði Skelfiskmarkaðarins eftir að veitingastaðnum var lokað í mars á síðasta ári.
Forsaga málsins er sú að fyrir opnun Skelfiskmarkaðarins sumarið 2018 keyptu forsvarsmenn hans margvíslegan búnað af Parka, þar á meðal 151 stól að andvirði 13,5 milljóna.
Eftir að Skelfiskmarkaðinum var lokað höfðu forsvarsmenn verslunarinnar samband við eigenda húsnæðisins þar sem Skelfiskmarkaðurinn var til húsa. Hleypti hann starfsmönnum Parka inn og sóttu þeir 149 af 151 stól.
Gefinn var út kreditreikningur til Skelfiskmarkaðrins þar sem kom fram að stólarnir væru teknir til baka með fimmtíu prósent afföllum vegna slita og notkunar. Var verðmæti stólanna því 6,7 milljónir.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu á síðasta ári að Bitter ehf. bæri að greiða þrotabúinu 6,7 milljónir vegna málsins, þar sem um ólögmæta og riftanlega ráðstöfun hafi verið um að ræða.
Bitter ehf, áfrýjaði málinu hins vegar til Landsréttar þar sem félagið fór fram á verða sýknað í málinu, en til vara félagið yrði sýknað af fjárkröfunni og að viðurkennd yrði að félaginu væri heimilt að skila stólunum 149.
Stólarnir í fínu lagi
Landsréttur féllst á þá niðurstöðu héraðsdóms að um riftanlega ráðstöfun hafi verið að ræða, þannig að forsvarsmönnum Skelfiskmarkaðarins hafi ekki verið heimilt að greiða skuld sína við Bitter ehf. með því að afhenda stólana 149.
Sem fyrr segir krafðist Bitter ehf. þess til vara að mega greiða skuldina með því að afhenda stólana. Dómkvaddur matsmaður hafði komist að þeirri niðurstöðu í málinu að stólarnir væru enn í fínu lagi í vörslu verslunarinnar, og að virði þeirra væri sambærilegt þeirri fjárkröfu sem upp væri í málinu.
Í dómi Landsréttar segir að þessu mati hafi ekki verið hnekkt og því væri Bitter ehf. heimilt að greiða skuldina með því að skila stólunum, enda hafi virði þeirra ekki rýrnað óhæfilega mikið.
Að auki þarf að Bitter ehf. að greiða þrotabúinu 1,6 milljónir í málskostnað vegna málsins.