Í ársbyrjun blésu Samtök iðnaðarins formlega til Árs nýsköpunar hér á landi. Með viðburðinum í gær lauk því formlega og var af því tilefni frumsýnt myndband, sem sjá má hér fyrir neðan, þar sem Íslendingar eru hvattir til þess að virkja hugvitið í meira mæli en áður.
Lausn faraldursins
„Nýsköpun stendur fyrir að leita lausna. Um allan heim hafa vísindamenn unnið að lausnum. Leitað lyfja, lækninga, leitað að bóluefni. Lausn okkar vanda liggur í vísindum, rannsóknum, þekkingu, frumkvæði. Í nýsköpun. Við getum leyft okkur að horfa björtum augum fram á veg,“ sagði Guðni í ræðu sinni.
Sýnum áfram samstöðuanda
„Ár nýsköpunar er á enda runnið með formlegum hætti en andi nýsköpunar svífur enn yfir vötnum hér á landi. Okkur öllum til heilla,“ sagði forsetinn áður en hann óskaði landsmönnum gleðilegra jóla og hvatti þá til dáða.
„Ég bið ykkur um að fara varlega nú þegar við erum komin á lokasprettinn, að því er vænta má, í þessari baráttu okkar. Á ég þá von á því að við sýnum áfram þann samstöðuanda sem við höfum búið yfir og hefur gert okkur kleyft að takast eins vel og unnt er á við vanda þess árs sem nú er senn á enda.“
Hægt er að horfa á útsendinguna frá viðburðinum í gær hér fyrir neðan. Auk ræðu forsetans flytja Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, og Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri ávörp. Sigríður Mogensen, sviðstjóri hugverkasviðs, var fundarstjóri.