Uppsagnirnar ná til níutíu starfsmanna World Class og taka gildi um áramótin. Eftir eru um 200 starfsmenn en um helmingi starfsfólks var sagt upp á árinu vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Líkamsræktarstöðvar hafa nú verið lokaðar síðan í október vegna kórónuveiruaðgerða.
Björn sagði í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að hann teldi uppsagnirnar nauðsynlegar. Hann kvað óvissuna um komandi vikur erfiða.
„Ég myndi segja það, við fáum engin svör um hvenær við fáum að opna. Það er bara talað um að þetta séu hættulegir staðir til að vera á og við verðum að tryggja að við lifum þetta af,“ sagði Björn.
Geta stuðst við bókanir með 100 manns
Þórólfur Guðnason sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann vonaðist til að hægt yrði að létta á aðgerðum um 12. janúar. Inntur eftir því hvort það hefði breytt einhverju fyrir hann ef hann hefði fengið skýrari svör og jafnvel dagsetningar sagði Björn svo vera.
„Að sjálfsögðu. En með þessi svör, að við eigum bara að hafa lokað á meðan það finnist einhvers staðar smit í samfélaginu, verðum við að reka fyrirtækið eins og okkur er best boðið.“
Björn mat það svo að hann gæti haldið starfsemi sinni gangandi í hundrað manna samkomubanni.
„Ég myndi segja að 100 manna samkomutakmarkanir væru í fínu lagi. Þá getum við bókað inn í tækjasalinn og bókað inn í leikfimitíma. Stærðirnar í þessum sal [líkamsræktar sal World Class í Laugum] eru náttúrulega þannig að það er eins og krækiber í helvíti. Við erum með sextán stöðvar þannig að þetta dreifist mjög vel. En ef þetta er eins og það er núna, að það er [gefið leyfi fyrir] tuttugu manns eða tíu, það er bara út í hött.“