Körfubolti

Allar dagsetningarnar fyrir „The Last Dance“ eru nú klárar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan á ferðinni með Chicago Bulls á lokatímabili sínu með liðinu.
Michael Jordan á ferðinni með Chicago Bulls á lokatímabili sínu með liðinu. Getty/Kent Smith/

Heimildarmyndin um síðasta tímabil Michael Jordan með Chicago Bulls hefur nú fengið staðfesta sýningartíma í Bandaríkjunum.

Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag þá hafa ESPN og ABC, sem framleiða tíu þátta heimildarmynd um Michael Jordan og síðasta Chicago Bulls liðið hans, ákveðið að flýta sýningum hennar um tvo mánuði.

Þetta er mikið gleðiefni fyrir körfuboltaáhugafólk sem þyrstir nú í ferskt efni eftir að öllum leikjum var frestað vegna kórónuveirunnar.

ESPN gaf það síðan út á Twitter síðu sinni áðan að „The Last Dance“ þættirnir verða sýndir frá 19. apríl til 17. maí.

Þættirnir verða sýndir tveir saman og einu sinni í viku. Frumsýningardagarnir eru öll sunnudagskvöld frá því um miðjan apríl fram í miðjan maí.

1997-98 tímabilið var það síðasta sem Michael Jordan spilaði með Chicago Bulls liðinu en á því vann hann sinn sjötta meistaratitil og endaði lokaleikinn á því að tryggja Bulls liðinu titilinn með síðasta skoti leiksins.

Phil Jackson kallaði tímabilið „The Last Dance“ eða „Síðasta dansinn“ af því að hann vissi að liðið væri að fara að leysast upp eftir það enda voru svo margir leikmenn að renna út á samning.

Svo fór að Chicago Bulls tefldi fram allt öðru og glænýju liði næsta tímabil á eftir og bæði Phil Jackson, Michael Jordan, Scottie Pippen og fleiri voru þar hvergi sjáanlegir.

Heimildarmyndin mun sína gríðarlega mikið af óbirtu myndefni frá þessu 1997-98 tímabili og þá sérstaklega frá því sem gekk á bak við tjöldin. Það verða síðan fullt af viðtölum við alla sem komu að þessu liði og þar á meðal við Michael Jordan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×