Fótbolti

Coutinho aftur til Bítlaborgarinnar en nú til þess að spila fyrir þá bláklæddu?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Coutinho hress og kátur og fagnar marki með Bayern.
Coutinho hress og kátur og fagnar marki með Bayern. visir/epa

Everton er tilbúið að kaupa Philippe Coutinho frá Barcelona en ensk dagblöð greina frá þessu um helgina. Eins og kunnugt er lék Coutinho með nágrönnunum í Liverpool um nokkura ára skeið.

Coutinho hefur á þessari leiktíð verið á láni hjá Bayern Munchen en hann hefur ekki sýnt nægilega mikið þar svo að félagið sé tilbúið að leggja fram þá peninga sem Barcelona vill fá fyrir Brassann.

Spænski risinn vill hins vegar selja Coutinho og samkvæmt Sport er Everton eitt þeirra félaga sem er tilbúið að kauða miðjumanninn knáa. Carlo Ancelotti, stjóri Everton, er sagður áhugasamur um hinn 27 ára gamla Coutinho.

Hvort að Coutinho sé tilbúinn að spila með nágrönnum Liverpool og taka á sig veglega launahækkun er ekki ljóst. Hann er talinn þéna um 200 þúsund pund á viku nú og litlar sem engar líkur að hann fengi svipaðan samning hjá Everton.

Chelsea og Tottenham eru einnig sögð á eftir Coutinho sem hefur skorað átta mörk og lagt upp önnur sex í Bundesligunni á þessari leiktíð. Áhyggjur forráðamanna Bayern beinast þó að því að í stærri leikjum liðsins á leiktíðinni hefur hann horfið.

Komi Coutinho til Bítlaborgarinnar og spili fyrir þá bláklæddu er ljóst að samkeppnin verður enn meiri fyrir Gylfa Sigurðsson sem er með samning við Everton til ársins 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×