Fótbolti

Segir að enski boltinn ætti að klárast í þriggja til fjögurra klukkutíma fjarlægð frá Englandi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gary Neville sparkspekingur.
Gary Neville sparkspekingur. vísir/getty

Umræðan um hvort og hvernig eigi að klára ensku úrvalsdeildina heldur áfram. Gary Neville, sparkspekingur Sky Sports, segir að ef yfirmönnum deildarinnar sé alvara um að klára deildina ætti hún að fara fram fyrir utan England.

Pressan er að færast yfir á enska boltann eftir að franska úrvalsdeildin og sú hollenska ákváðu að enda tímabilið. Margar útgáfur hafa heyrst um enska boltann undanfarna daga og vikur en enginn hefur fengið staðfest.

„Ef úrvalsdeildinni er alvara um að klára þá leiki sem eftir eru í sem öruggustu umhverfi þá ættu þeir að fara með leikina þrjá eða fjóra klukkutíma í burtu. Eitthvert þar sem þú ert öruggur fyrir veirunni. Í land sem hefur sannað að það getur ráðið við veiruna,“ sagði Neville.

„Það eru nokkrir blettir í Evrópu sem gætu ráðið við að klára ensku úrvalsdeildina. Ég veit ekki hvort að þeir geti ráðið við öll þau vandræði í þessu landi og allt sem þarf að skipuleggja.“

Samstarfsfélagi Neville, Jamie Carragher, tók í sama streng og Neville.

„Þú getur ekki haft heilan leikmannahóp af leikmönnum sem eru áhyggjufullir um stöðuna og fjölskyldu þeirra. Þetta er komið á þann stað að það eru engar líkur að leikmennirnir geti bara byrjað að spila fótbolta aftur.“

„Mögulega er það eina sem þú getur gert að búa til lítið HM-mót. Nota óháða velli, einhverja æfingavelli og öryggi leikmanna og starfsmanna er það mikilvægasta. Það kemur fyrst og síðast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×