Fótbolti

Gengi Michael Owen í enska boltanum hvatti Aguero til dáða sem man enn eftir markinu magnaða á HM 1998

Anton Ingi Leifsson skrifar
Létt yfir Sergio Aguero.
Létt yfir Sergio Aguero. Getty/ Michael Regan

Sergio Aguero, framherji Englandsmeistara Manchester City, segir að hann hafi litið mikið upp til Michael Owen á sínum yngri árum og segist muna eftir mögnuðu marki sem Owen skoraði á HM 1998.

Aguero er fjórði markahæsti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en hann kom til Englands eftir að hafa slegið í gegn hjá Atletico Madrid á Spáni. Það var þó Michael Owen sem heillaði Aguero á sínum yngri árum.

„Þegar ég var lítill þá leit ég upp til Michael Owen. Ég hef alltaf sagt það. Líka í bókinni minni. Mér líkaði vel við hann því hann var lítill og var númer tíu, eins og ég var og hann var framherji,“ sagði Aguero og hélt áfram:

„Svo ég sagði við sjálfan mig að ef hann getur gert svona vel í ensku úrvalsdeildinni þá get ég það líka. Hugsaðu þér að ég var bara krakki þarna. Ég var níu eða tíu ára gamall.“

Aguero man eftir því þegar Owen skoraði algjörlega frábært mark gegn Argentínu á HM 1998 en hann sólaði þá hvern Argentínumanninn á fætur öðrum. England tapaði þó leiknum í vítaspyrnukeppni.

„Þetta var 1997/1998/1998. Hann skoraði magnað mark með Englandi. Ég var strákur og þegar ég sá þetta trúði ég ekki mínum eigin augum. Ég var að horfa á HM hjá nágrönnunum og ég sagði við alla að ég elskaði Owen,“ sagði Aguero.

Aguero hefur skorað 180 mörk í ensku úrvalsdeildinni en Owen er 30 mörkum á eftir Argentínumanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×