Ágúst markaði djúp spor í sögu Íþróttafélagsins Þórs á Akureyri þar sem hann er goðsögn í körfuboltasamfélaginu norðan heiða eftir að hafa verið í lykilhlutverki í starfi körfuknattleiksdeildar félagsins undanfarna áratugi.
Á þjálfaraferli sínum kom hann að þjálfun nær allra flokka Þórs, allt frá yngstu flokkum og upp í meistaraflokk en Ágúst hætti þjálfun árið 2017 þegar sjúkdómurinn hafði tekið mikinn toll af honum.
Ágúst náði góðum árangri með lið Þórs í meistaraflokki í efstu deild en sérstaklega náði hann góðum árangri í yngri flokka þjálfun. Hann þjálfaði drengjaflokk Þórs sem varð Íslandsmeistari árið 1998 en það var fyrsti meistaratitill Akureyrarliðsins í körfubolta karlamegin. Hann þjálfaði svo margrómaðan 2001 árgang Þórs sem vann fjölda Íslandsmeistaratitla í yngri flokkum auk þess að vinna Scania Cup.
Hann hlaut silfur- og gullmerki Íþróttafélagsins Þórs fyrir sín störf í þágu félagsins og hefur einnig hlotið gullmerki KKÍ, Körfuknattleikssambands Íslands, fyrir sitt framlag til íslensks körfubolta. Þá var Ágústi veitt heiðursviðurkenning Frístundaráðs Akureyrar árið 2017 fyrir störf sín í þágu körfuboltans.
Ágúst þjálfaði ekki bara körfubolta hjá Þór heldur var hann virkur í öllu starfi körfuknattleiksdeildarinnar og veitti stjórn deildarinnar ráðgjöf til hinsta dags.
Birt voru minningarorð á heimasíðu Þórs í dag.
Ágúst lætur eftir sig eiginkonu og þrjú börn.
Þeirra á meðal er Júlíus Orri Ágústsson sem hefur leikið lykilhlutverk í liði Þórs í Dominos deildinni á undanförnum árum þrátt fyrir ungan aldur.