Körfubolti

Nýliðinn tryggði Boston sigur á silfurliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Boston Celtics fagna Payton Pritchard eftir að hann skoraði sigurkörfu liðsins gegn Miami Heat.
Leikmenn Boston Celtics fagna Payton Pritchard eftir að hann skoraði sigurkörfu liðsins gegn Miami Heat. getty/Michael Reaves

Nýliðinn Payton Pritchard tryggði Boston Celtics sigur á Miami Heat, 105-107, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Hann skoraði sigurkörfuna þegar 0,2 sekúndur voru eftir af leiknum.

Þetta var þriðji sigur Boston í röð en liðið er í 4. sæti Austurdeildarinnar. Jayson Tatum var stigahæstur í liði Boston með 27 stig. Jimmy Butler skoraði 26 stig fyrir Miami. Flórídaliðið komst alla leið í úrslit á síðasta tímabili en hefur farið rólega af stað í vetur og hefur aðeins unnið þrjá af fyrstu sjö leikjum sínum.

Sextíu stig Bradleys Beal dugðu Washington Wizards ekki til sigurs gegn Philadelphia 76ers. Lokatölur 141-136, Philadelphia í vil.

Beal jafnaði félagsmet Washington með stigunum sextíu. Hann skoraði 57 stig í fyrstu þremur leikhlutunum en aðeins þrjú í 4. leikhluta.

Joel Embiid var atkvæðamestur í liði Philadelphia með 38 stig. Liðið er með besta árangurinn í NBA það sem af er tímabili; sjö sigra og eitt tap.

Los Angeles Clippers sigraði Golden State Warriors, 101-108, á útivelli. Kawhi Leonard og Paul George skoruðu 21 stig hvor fyrir Clippers sem er í 3. sæti Vesturdeildarinnar. Stephen Curry hafði hægt um sig hjá Golden State og skoraði aðeins þrettán stig.

Phoenix Suns komst á topp Vesturdeildarinnar með sigri á Toronto Raptors, 123-115, á heimavelli. 

Devin Booker skoraði 24 stig í jöfnu liði Phoenix sem hefur unnið sex af fyrstu átta leikjum sínum á tímabilinu. Allt gengur hins vegar á afturfótunum hjá Toronto sem hefur aðeins unnið einn leik það sem af er vetri.

Úrslitin í nótt

  • Miami 105-107 Boston
  • Philadelphia 141-136 Washington
  • Golden State 101-108 LA Clippers
  • Phoenix 123-115 Toronto
  • Indiana 114-107 Houston
  • Orlando 105-94 Cleveland
  • Atlanta 94-102 Charlotte
  • NY Knicks 112-100 Utah
  • Milwaukee 130-115 Detroit
  • New Orleans 110-111 Oklahoma
  • Sacramento 128-124 Chicago

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×