Körfubolti

NBA dagsins: Doncic vann júróslaginn gegn Jokic

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikola Jokic og Luka Doncic skoruðu 38 stig hvor í leik Denver Nuggets og Dallas Mavericks.
Nikola Jokic og Luka Doncic skoruðu 38 stig hvor í leik Denver Nuggets og Dallas Mavericks. getty/AAron Ontiveroz

Tveir af bestu evrópsku leikmönnum NBA-deildarinnar í körfubolta fóru mikinn þegar Dallas Mavericks sigraði Denver Nuggets í nótt, 117-124.

Luka Doncic og Nikola Jokic skoruðu báðir 38 stig í leiknum í Denver í nótt. Doncic tók einnig níu fráköst og gaf þrettán stoðsendingar og Jokic tók ellefu fráköst.

Mikil spenna var á lokakafla leiksins. Maxi Kleber kom Dallas yfir, 107-109, með þriggja stiga körfu eftir sendingu frá Doncic þegar 2,4 sekúndur lifðu leiks.

Denver fékk tækifæri til að jafna í lokasókn sinni og það gerði Jokic þegar hann setti niður erfitt skot. Staðan eftir venjulegan leiktíma 109-109 og því þurfti að framlengja. Jokic skoraði alls sautján stig í 4. leikhlutanum.

Í framlengingunni reyndist Dallas sterkari aðilinn. Josh Richardson steig þar fram og skoraði fimm stig í röð þegar Dallas náði að slíta sig aðeins frá Denver. Doncic kláraði svo dæmið með því að skora síðustu fjögur stig Dallas.

Doncic og félagar hafa unnið tvo leiki í röð og eru komnir upp í 9. sæti Vesturdeildarinnar. Denver er í 12. sætinu.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá allt það helsta úr leik Denver og Dallas. Þar má einnig sjá brot úr sigri Brooklyn Nets á Philadelphia 76ers og úr sigri San Antonio Spurs og Los Angeles Lakers sem og tíu flottustu tilþrif leikja næturinnar.

Klippa: NBA dagsins 8. janúar

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×