Körfubolti

NBA dagsins: Durant gæddi sér á Nöggum og meistararnir léku sér

Sindri Sverrisson skrifar
Kevin Durant var í stuði gegn Denver Nuggets.
Kevin Durant var í stuði gegn Denver Nuggets. Getty/Sarah Stier

Kevin Durant átti stærstan þátt í því að Brooklyn Nets unnu upp 18 stiga forskot Denver Nuggets og lönduðu sætum sigri, 122-116, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Í NBA-pakka dagsins má sjá svipmyndir úr leiknum sem og öruggum sigri meistara LA Lakers á Houston Rockets og háspennuleik Philadelphia 76ers og Miami Heat.

Hægt er að horfa á NBA-pakka dagsins hér neðst í greininni.

Durant skoraði 34 stig gegn Denver, átti 13 stoðsendingar og tók níu fráköst. Hann gerði út um leikinn með þristi sem kom Brooklyn í 120-113 þegar tæplega hálf mínúta var eftir. Bruce Brown, sem byrjaði leikinn í fjarveru Kyrie Irving, var hins vegar einnig öflugur með 16 stig og þar á meðal körfurnar sem komu Brooklyn loks yfir í leiknum.

Joel Embiid var senuþjófur kvöldsins en hann skoraði 45 stig í sigri Philadelphia 76ers á Miami Heat, 137-134, í framlengdum leik. Kórónuveiran hefur hrellt bæði lið og valdið fámenni í leikjum þeirra, svo eftir þrjú töp í röð var afar kærkomið fyrir 76ers að fá þriggja stiga körfu frá Dakota Mathias þegar hálf mínúta var eftir af framlengingunni, er hann kom liðinu yfir.

Í Houston var James Harden þungur á sér og fjórða leikinn í röð skoraði hann 20 stig eða minna, eða 16 stig að þessu sinni. LeBron James og félagar í meistaraliði Lakers voru byrjaðir að leika sér strax í fyrri hálfleik, 35-14 yfir að loknum fyrsta leikhluta og öruggir um sigurinn allan tímann. Uppgjafartónn var í Harden eftir leik.

Svipmyndir úr leikjunum og tíu bestu tilþrif næturinnar má sjá hér að neðan.

Klippa: NBA dagsins 13. janúar
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×