Körfubolti

Tvíburaendurfundir í landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Rún og Bríet Sif Hinriksdætur voru ánægðar að hittast á ný í Slóveníu í morgun.
Sara Rún og Bríet Sif Hinriksdætur voru ánægðar að hittast á ný í Slóveníu í morgun. KKÍ

Tvíburasysturnar Sara Rún og Bríet Sif Hinriksdætur voru sameinaðar á ný í morgun þegar Sara Rún kom til móts við íslenska landsliðshópinn í Slóveníu.

Bríet Sif er að spila með Haukum í Domino´s deildinni og fór út með hinum landsliðsstelpunum þegar liðið lagði af stað frá Íslandi á laugardaginn.

Sara Rún Hinriksdóttir er eini leikmaður liðsins sem er að spila erlendis en hún spilar með Leicester Raiders í bresku deildinni.

Þetta er þriðja landsliðsverkefnið þar sem tvíburarnir úr Keflavík eru báðar með landsliðinu en það voru líka báðar með í tveimur leikjum í nóvember 2018 og í tveimur leikjum í nóvember 2020.

Sara Rún hefur spilað 21 landsleik en Bríet Sif hefur spilað fjóra landsleiki til þessa á ferlinum.

Íslenski hópurinn flaug með Icelandair til Amsterdam á laugardaginn og gisti þar í eina nótt á flugvallarhóteli. Hópurinn ferðaðist svo á sunnudaginn á áfangastað og tók sína fyrstu æfingu í Ljubljana í gær.

Ferðalagi Söru Rúnar seinkaði aðeins en hún kom til móts við íslenska hópinn í morgun og voru tvíburasysturnar því sameinaðar á nýjan leik.

Sara Rún Hinriksdóttir var langbesti leikmaður íslenska liðsins i leikjunum í nóvember þar sem hún var með 54 stig, 15 fráköst og 6 stoðsendingar í tveimur leikjum.

Leikir íslensku stelpnanna fara fram í landsliðsglugga FIBA dagana 31. janúar-7. febrúar og verða leiknir eins og áður hefur komið fram í Slóveníu í öruggri „bubblu“ sem FIBA setur upp fyrir öll liðin í A-riðli undankeppninnar. Farið verður eftir ströngum reglum innan hennar með sóttvarnir.

Leikirnir í undankeppninni hjá öllum liðum í nóvember og nú í febrúar áttu að vera heima og að heiman líkt og venjulega en var breytt fyrir alla riðlana níu í keppninni í einangraða leikstaði á nokkrum leikstöðum.

Íslenska liðið mætir fyrst Grikkjum 4. febrúar næstkomandi og 6. febrúar spilar liðið síðan gegn heimastúlkum í Slóveníu.

Landslið kvenna mættar til Slóveníu! Allt til fyrirmyndar þar og frábærar aðstæður. Ferðlagið gekk vel hjá hópnum en...

Posted by KKÍ - Körfuknattleikssamband Íslands on Sunnudagur, 31. janúar 2021



Fleiri fréttir

Sjá meira


×