„Þetta er mikið tap en stór hluti af þessu tapi eru reiknishaldslegar færslur, við erum að færa niður óefnislegar eignir út af ástandinu, afskrifa okkar vélar og tæki, flugvélar, þó við séum ekkert að fljúga. Það er ekki peningur sem fer út úr kassanum,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í Víglínunni á Stöð 2 í dag.
Hann segir að félaginu hafi tekist vel að takast á við árið. Hann segir þó líklegt að Icelandair hefði ekki komist í gegn um síðasta ár án aðkomu stjórnvalda.
Icelandair fór í hlutafjárútboð í haust og breyttist eigendahópur Icelandair mikið í kjölfarið. Fyrir útboðið voru um 3000 aðilar sem áttu hlut í Icelandair en nú eru þeir um 14.500 og segir Bogi marga þar íslenskan almenning.
„Það er alveg frábært, það sýnir mikið traust til okkar félags en við þurfum að standa undir mikilli ábyrgð og þetta er mikil ábyrgð sem okkur er sýnd og við ætlum klárlega að standa undir henni,“ segir Bogi.
Hluti af aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirufaraldursins var að bjóða upp á lánalínur með ríkisábyrgð. Bogi Nils hefur áður sagt að þau vilji forðast eftir bestu getu að draga á lánalínur með ríkisábyrgð en bregðist ferðalög í sumar gæti félagið þurft að grípa til þessa ráðs.
„Markmið okkar númer eitt, tvö og þrjú er að nota ekki þessa lánalínu en ef það fer ekkert í gang í sumar og við verðum í hýði áfram í gegn um sumarið er líklegt að við þurfum að nota hana en við erum að róa að því öllum árum að þurfa ekki að draga á þessa lánalínu,“ sagði Bogi í dag.