RÚV greinir frá þessu en mikil óánægja hefur verið meðal kráareiganda með fyrirkomulag sóttvarnatakmarkana. Barir og skemmtistaðir fengu að opna síðasta mánudag eftir að hafa verið lokaðir í fjóra mánuði en vínveitingastaðir sem einnig hafa leyfi til að selja mat hafa lengi fengið að bjóða gesti velkomna með takmörkunum.
Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður eiganda The English Pub, segir að stjórnvöld hafi hvorki gætt meðalhófs né virt jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga. Þá segir hún í samtali við RÚV að hvergi sé minnst á heimild til að skerða atvinnufrelsi eða láta loka einkareknum fyrirtækjum í þágildandi sóttvarnalögum en ný og endurskoðuð sóttvarnalög voru samþykkt á Alþingi fyrir sléttri viku.
Fleiri skoðað réttarstöðu sína
Skömmu áður en stjórnvöld tilkynntu afléttingarnar greindu kráareigendur frá því að þeir væru að kanna með lögfræðingum hvort fyrirkomulag sóttvarnaaðgerða hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu. Vonast rekstraraðilar að dómur í máli eiganda English Pub verði fordæmisgefandi.
„Ég veit það að það eru margir að skoða þetta með sínum lögræðingum því þessi jafnræðisregla sem ein af grunnstoðum lýðræðis er svo fótum troðin að það hálfa er nóg. Ég er eiginlega hissa á stjórnvöldum að hafa ekki skoðað það mál með sínum lögfræðingum,“ sagði Kormákur Geirharðsson, annar eigandi Ölstofu Kormáks og Skjaldar, í samtali við fréttastofu í byrjun febrúar.
Þá sagðist Arnar Þór Gíslason, einn eigenda Kaldabars, einnig vera að skoða réttarstöðu sína.
Fréttin hefur verið uppfærð.