Skoðun

Eflum fagmenntun verslunarfólks

Jón Steinar Brynjarsson skrifar

Tæknibreytingar eru um þessar mundir að gerbreyta starfsumhverfi verslunarfólks. Á sama tíma aukast kröfur um hvers kyns færni. Gildi fagnáms fer hratt vaxandi enda munu verslunarstörf framtíðarinnar krefjast sífellt meiri sérþekkingar. Aukin hæfni gerir störfin verðmætari og getur þar með orðið eitthvert öflugasta tæki sem völ er á til að bæta kjörin. Einnig er fagmenntun og viðurkenning á fagþekkingu leið til að hefja verslunarstörf til vegs og virðingar.

Ég þekki þetta af eigin raun en ég var í lok síðasta árs í fyrsta útskriftarhópi nýs fagnáms verslunar og þjónustu sem kennt er við Verzlunarskóla Íslands. Sjálfur hef ég um sjö ára skeið starfað við afgreiðslu í matvöruverslun þar sem ég er nú verslunarstjóri. Sú þekking sem ég aflaði mér í fagnáminu hefur reynst mér heldur betur gagnleg en líka aukið skilning minn á mikilvægi aukinnar fagmenntunar verslunarfólks líkt og þekkist í löndunum í kringum okkur.

Sjálfur var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að geta sinnt fagnámi verslunar og þjónustu samhliða fullu starfi án þess að kjör mín skertust. – Þetta er lykilatriði til að sem flestir geti sótt sér aukna fagþekkingu. Ég vil gjarnan geta unnið að fræðslumálum verslunarfólks og leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að auka framboð á hvers kyns endurmenntun og símenntun.

Til að geta unnið sem best að þessum hugðarefnum mínum hef ég ákveðið að gefa kost á mér til setu í stjórn VR en kosning fer fram nú í vikunni og henni lýkur föstudaginn 12. mars. Ég hvet alla félagsmenn til að nýta sér kosningarétt sinn á heimasíðunni VR.is.

Höfundur er verslunarstjóri.




Skoðun

Sjá meira


×