Íslenski boltinn

KR á­fram og FH úr leik eftir jafn­tefli í dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
KR-ingar eru komnir áfram í Lengjubikarnum.
KR-ingar eru komnir áfram í Lengjubikarnum. Vísir/Daniel Thor

Einn leikur fór fram í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. KR og FH gerðu 1-1 jafntefli á gervigrasinu í Vesturbæ Reykjavíkur. KR er þar með öruggt með sæti í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins en FH komst ekki áfram.

Um var að ræða síðasta leik liðanna í riðlinum og gestirnir úr Hafnafirði þurftu á sigri að halda til að komast áfram í 8-liða úrslit. Baldur Logi Guðlaugsson kom gestunum yfir þegar fimm mínútur voru til hálfleiks og staðan því 0-1 er flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Pálmi Rafn Pálmason jafnaði metin fyrir KR þegar rúm klukkustund var liðin af leiknum. Staðan orðin 1-1 og reyndust það lokatölur leiksins. KR er því öruggt áfram í 8-liða úrslitin en liðið er sem stendur taplaust á toppi riðilsins með 11 stig eftir fimm leiki.

Víkingur getur hirt toppsætið fari svo að liðið vinni Þór Akureyri á morgun. Lærisveinar Arnars Gunnlaugssonar eru einnig komnir áfram þar sem FH endar í 3. sæti og var eina liðið sem átti möguleika á að ná öðrum af tveimur efstu sætunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×