Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Að jafnaði vakna ég á bilinu hálfsjö til sjö, eftir því hve vel undirbúinn ég er fyrir verkefni dagsins.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Fyrsta sem ég geri er að knúsa konuna mína. Ég er ekki mikið fyrir að rjúka upp um leið og klukkan hringir. Eftir sturtu gef ég heimilishundinum Heru að borða en hún hefur ekki mikinn húmor fyrir því að vera sett aftar í röðina en það.
Eftir að hafa rennt yfir forsíður blaðanna og heimasíður helstu fréttamiðla fer ég út með hundinn og útbý ilmandi Illy kaffibolla handa minni heittelskuðu.“
Hvað er það fyrsta sem þú ætlar að gera eftir bólusetningu?
„Ég hlakka auðvitað til að knúsa mömmu almennilega, hún á sko skilið mikið af knúsum eftir þetta Covid ár.
Annars getum við ekki beðið eftir að fara á skíði til Ítalíu því Covid hafði af okkur nokkrar skíðaferðir. Við vorum einmitt að ganga frá því í gær að festa okkur skíðaferð til Madonna í byrjun næsta árs.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
Síðustu vikur hafa farið í undirbúning á stækkun hjá okkur í Ölgerðinni. Við ætlum að byggja yfir nýja framleiðslulínu sem margfaldar afkastagetu okkur.
Við vorum leggja lokahönd á stefnumótun fyrirtækisins til næstu þriggja ára og kynna áætlanir fyrir stjórn fyrirtækisins.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Dagarnir mínir eru flestir þéttbókaðir af fundum. Þegar ég mæti á morgnana fer ég alltaf yfir lykiltölur í rekstrinum, fylgist með daglegum sölutölum og svara ólesnum tölvupóstum frá deginum áður.
Ég nota oft kvöldin og stundum helgar til að undirbúa fundina og skipuleggja verkefnin.
Mér finnst alltaf gott að skrifa niður verkefnin á to do lista og strika svo samviskusamlega út eftir því sem ég klára. Í stærri og flóknari verkum er ég farinn að notast við Planner.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég er mjög samviskusamur í því að fara að sofa fyrir miðnætti og oft er ég kominn í rúmið upp úr klukkan ellefu.
Mér þykir vænt um svefninn minn og veit að allt fer úr skorðum ef ég snuða sjálfan mig um mína sjö til átta tíma.“