Erlent

Keypti skál á garðsölu fyrir 35 dali en seldi hana fyrir 722 þúsund dali á uppboði

Samúel Karl Ólason skrifar
Ekki liggur fyrir hvernig aldagömul og gífurlega verðmæt postulínsskál endaði í garðsölu í Connecticut í Bandaríkjunum.
Ekki liggur fyrir hvernig aldagömul og gífurlega verðmæt postulínsskál endaði í garðsölu í Connecticut í Bandaríkjunum. AP/Sotheby's

Postulínsskál sem áhugamaður um fornminjar keypti fyrir 35 dali í garðsölu í New Haven í Connecticut í Bandaríkjunum í fyrra hefur verið seld á uppboði fyrir 722 þúsund dali. Það samsvarar rúmlega 90 milljónum króna.

Skálin reyndist vera frá upphafi fimmtándu aldar og var hún framleidd á tímum Ming-keisaraveldisins, samkvæmt sérfræðingum uppboðsfyrirtækisins Sotheby‘s. Þá var Zhu Di keisari í Kína og kom hann á nýjum framleiðsluaðferðum við skálar sem þessa.

Þegar sérfræðingar Sotheby‘s komu höndum yfir skálina sáu þeir að hún var gerð með áðurnefndum framleiðsluaðferðum og sannreyndu að hún væri gífurlega gömul og verðmæt.

Einungis sex aðrar skálar af þessari gerð eru til í heiminum, svo vitað sé, og samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar er þær allar á söfnum.

Ekki er ljóst hvernig skálin endaði í garðsölu í Connecticut en Angela McAteer, sem stýrir Kínadeild Sotheby‘s segir að líklegast hafi hún verið í eigu sömu fjölskyldunnar um árabil, án þess að nokkur þeirra hefði hugmynd um hve verðmæt hún væri í rauninni.

Sjá má uppboð skálarinnar hjá Sotheby‘s hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×