Körfubolti

NBA dagsins: Refurinn skaut nýbólusetta Warriors leikmenn á bólakaf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
De'Aaron Fox er frábær leikmaður og virðist vera hér hreinlega vera að stríða aðeins Kent Bazemore hjá Golden State Warriors í leiknum í nótt.
De'Aaron Fox er frábær leikmaður og virðist vera hér hreinlega vera að stríða aðeins Kent Bazemore hjá Golden State Warriors í leiknum í nótt. AP/Randall Benton

De'Aaron Fox er á góðri leið að komast í hóp stórstjarna NBA-deildarinnar eftir frammistöðu sína í síðustu leikjum. Hann hefur aldrei skorað meira í einum leik en á móti Golden State Warriors í nótt.

De'Aaron Fox hitti úr 16 af 22 skotum sínum og endaði með 44 stig og 7 stoðsendingar í 141-119 stórsigri Sacramento Kings á Golden State. Fox hefur skorað meira en 30 stig í sex af síðustu tíu leikjum og er með 30,7 stig í leik á þeim tíma.

Í síðustu tveimur leikjum hefur Fox boðið upp á 81 stig samanlagt og 69 prósent skotnýtingu (29 af 42).

„Það er gaman að fylgjast með honum, virkilega gaman. Að sjá hann átta sig betur á hlutunum og sjá hann vaxa sem leiðtoga bæði í því hvernig hann tjáir sig og með því hvernig hann spilar. Hann er á góðum stað núna. Þegar De'Aaron er að spila svona þá erum við mjög lið,“ sagði Luke Walton, þjálfari Sacramento Kings.

Leikmenn og þjálfarar Golden State Warriors voru bólusettir með Johnson & Johnson bóluefninu til varnar kórónuveirunni. Draymond Green vaknaði veikur og var ekki með en Stephen Curry missti af fjórða leiknum í röð eftir að hafa fengið högg á rófubeinið.

Golden State vann Sacramento með 31 stigi í janúarmánuði en þá væri bæði Curry og Green með.

Tyrese Haliburton skoraði 21 stig og sex þrista fyrir Kings og Richaun Holmes var með 25 stig og 11 fráköst í fimmta sigri Sacramento Kings í síðustu sex leikjum.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir af þessari frammistöðu De'Aaron Fox sem og myndir frá því þegar Portland Trail Blazers vann Miami Heat og þegar Danny Green fór á kostum í sigri Philadelphia 76ers á hans gömlu félögum í Los Angeles Lakers. Auk þess má sjá bestu tilþrif næturinnar.

Klippa: NBA dagsins (frá 25. mars 2021)
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×