Erlent

Á­fram mót­mælt á götum Minnea­polis

Atli Ísleifsson skrifar
Að minnsta kosti sextíu mótmælendur voru handteknir í mótmælum næturinnar.
Að minnsta kosti sextíu mótmælendur voru handteknir í mótmælum næturinnar. AP

Áfram var mótmælt á götum Brooklyn Center, úthverfi Minneapolis í Minnesota, í nótt eftir að hinn tvítugi Daunte Wright var skotinn til bana af lögreglunni á sunnudag. Að minnsta kosti sextíu mótmælendur voru handteknir í mótmælum næturinnar.

Fólk hópaðist á götur úti í borginni og kom til átaka milli þess og lögreglu, sem beitti meðal annars táragasi. 

Lögreglan segir að um slysaskot hafi verið að ræða og að lögreglukonan sem skaut Wright hafi í raun ætlað að beita rafbyssu. Hún sagði upp störfum í gær og slíkt hið sama gerði lögreglustjóri borgarinnar, en það virðist lítið hafa róað mótmælendurna.

AP segir frá því að reiknað sé með að saksóknarar muni kynna ákvörðun sína í dag um hvort að lögreglukonan, hin 48 ára Kim Potter sem er með 26 ára starfsreynslu í lögreglunni, verði ákærð í tengslum við dauða Wright.

Spennan í borginni var mikil fyrir, því nú standa yfir réttarhöld yfir lögreglumanninum Derek Chauvin sem var George Floyd að bana en drápið á honum varð kveikjan að mikilli mótmælaöldu gegn kerfisbundnum rasisma og lögregluofbeldi víðs vegar um heiminn. Það atvik átti sér einnig stað í Minneapolis.


Tengdar fréttir

Tugir mótmælenda handteknir í Minnesota

Fjörutíu mótmælendur voru handteknir í Brooklyn Center í Bandaríkjunum í nótt. Mikil reiði er á meðal borgarbúa eftir að lögregla skaut tvítugan svartan karlmann til bana á sunnudag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×