Keflvíkingar hafa verið í frábæru formi í vetur og eru með yfirburðastöðu þegar fjórar umferðir eru óspilaðar.
Keflavíkurliðið er með átta stiga forskot á Þór Þorlákshöfn og Stjörnuna þegar átta stig eru eftir í pottinum. Það er þó bara annað þeirra sem getur komist upp fyrir Keflavík en þá þarf mikið að gerast í lokaumferðunum.
Keflavík vantar nefnilega bara einn sigur í viðbóta til að tryggja sér deildarmeistaratitilinn og heimavallarrétt út alla úrslitakeppnina. Þeim nægir líka að Stjarnan tapi einum leik af þeim fjórum sem Garðbæingar eiga eftir.
Þórsarar eru undir innbyrðis á móti Keflavík og geta því ekki komist upp fyrir Keflavík þótt að þeir fái átta fleiri stig í síðustu fjórum umferðunum. Stjörnumenn eru aftur á móti betri innbyrðis á móti Keflavík og geta því enn tekið af þeim toppsætið.
Þetta þýðir að sú staða er komin upp að hitt Reykjanesbæjarliðið getur hjálpað hinu.
Það eru nefnilega nágrannar Keflvíkinga í Njarðvík sem heimsækja Stjörnumenn í Garðabæinn í kvöld.
Njarðvíkingar geta þar með gert nágranna sína í Keflavík að deildarmeisturum í kvöld en það gera þeir með því að vinna Stjörnuna. Njarðvíkingar þurfa sjálfir nauðsynlega á stigum að halda í baráttunni um að halda sæti sínu í deildinni.
Keflavík hefur ekki unnið deildarmeistaratitilinn i þrettán ár eða síðan vorið 2008.

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.