Kvartanir sendiráðsstarfsmannanna voru lengi hunsaðar, þar til rannsóknir leiddu í ljós að umræddir starfsmenn höfðu hlotið vægan heilaskaða. Vísindaráð Bandaríkjanna telur örbylgjur orsök veikindanna.
Svipuð veikindi hafa verið tilkynnt af Bandaríkjamönnum í Kína og hermönnum í Sýrlandi. Leyniþjónustan CIA og hernaðaryfirvöld í Pentagon rannsaka málið.
Samkvæmt CNN ná rannsóknir þeirra til tveggja tilvika sem voru tilkynnt í Washington D.C árin 2019 og 2020. Annað átti sér stað við Hvíta húsið í nóvember en þá varð einstaklingur sem situr í þjóðaröryggisráðinu skyndilega veikur.
Hitt tilvikið átti sér stað í úthverfi í Arlington. Þá var starfsmaður Hvíta hússins á göngu með hundinn sinn þegar maður steig út úr sendibíl og gekk framhjá henni. Á sama tíma fékk hundurinn flog og strax í kjölfarið fann hún fyrir einkennum; hátíðnisuði í eyrunum, miklum höfuðverk og náladofa í hægri hluta andlitsins.
Talsmaður Hvíta hússins sagði heilsu og heilbrigði opinberra starfsmanna forgangsmál og að málið væri til rannsóknar, bæði innanhúss og hjá öðrum stofnunum.
Einkenni svokallaðs „Havana-heilkennis“ eru hátíðnisuð í eyra og svima, ógleði og höfuðverk í kjölfarið. Sumir þjást af minnistapi, sem getur orðið viðvarandi.