Reksturinn hefur verið hluti af Olís eftir að olíufélagið sameinaðist smásölurisanum Högum árið 2019 en verslunin hefur verið rekin í um 25 ár.
„Þetta er verkefni sem við fengum frá Hagkaup á sínum tíma. Markmiðið var að blása lífi í þetta en rekstraraðstæður á síðasta ári voru því miður með þeim hætti að við töldum okkur ekki fært að halda þessum rekstri óbreyttum áfram. Niðurstaðan var sú að við ákváðum að loka,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, framkvæmdastjóri Olís og vísar þar einkum til áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru.

„Þetta er búið að reynast fyrirtækjum mjög erfitt ástand og þessi hluti í okkar verslunarstarfsemi var bara ekki að ganga upp.“
Allt að tæmast
Síðustu daga og vikur hefur verið unnið að því að skila vörum verslunarinnar til birgja og selja restina á sérstakri rýmingarsölu.
„Það er ekkert orðið eftir þannig að það verður lokað þarna sennilega á morgun eða fyrir helgi,“ segir Jón. Skömmu eftir samtal hans við fréttamann var tilkynnt á Facebook-síðu Stórkaupa að hún yrði ekki opnuð aftur á morgun.
Jón bætir við að hluti vöruúrvalsins muni flytjast yfir í Hagkaup Skeifunni þar sem fólk geti áfram verslað valdar vörur.

Þessum kafla lokið
Jón vill ekki kannast við að tilkoma Costco árið 2017 hafi haft mikil neikvæð áhrif á rekstur Stórkaupa. Báðar verslanirnar sérhæfa sig meðal annars í því að selja matvörur í magnpakkningum sem nýtast ekki síst veitingaaðilum og öðrum rekstraraðilum.
Hann segir að hugmyndin með tilfærslu Stórkaupa til Olís hafi verið að samþætta verslunina rekstrarvörustarfsemi Olís en ólíkt Olís einblíndi Stórkaup meira á matvöru og þjónustu við veitingaaðila.
„Ástandið á síðasta ári kippti því miður fótunum undan þeim áformum þannig að við ákváðum að loka þessum hluta og einbeita okkur að okkar rekstrarvörusölu en þessum kafla er lokið.“