FH vann leikinn að lokum 30-27 en Bjarni og Einar Andri Einarsson voru á því að liðið hefði átt að gera út um leikinn fyrr.
FH var 17-13 yfir eftir fyrri hálfleik en Afturelding minnkaði muninn fljótt í eitt mark og komst yfir, 26-25 þegar tæplega átta mínútur voru eftir.
„FH-ingar eru í 2. sæti og þetta er liðið sem við teljum að sé líklegt til að veita Haukum einhverja keppni um Íslandsmeistaratitilinn. Þeir voru hins vegar svolítið flatir í þessum leik, sérstaklega á þessum kafla í seinni hálfleik. Þarna hefði maður viljað sjá toppklassalið „klára“ leikinn almennilega en ekki hleypa þeim inn í leikinn. Mér fannst vanta algjört drápseðli í FH-inga,“ sagði Bjarni.
Innslagið úr Seinni bylgjunni, sem sýnd er á Stöð 2 Sport, má sjá hér að neðan:
Einar Andri tók undir með Bjarna:
„Mér finnst FH-ingar oft spila ótrúlega góðan handbolta og þeir komast fimm mörkum yfir í seinni hálfleik en samt varð spenna í lokin. Það þarf aðeins meiri aga og skynsemi í lokin, því mér finnst þeir vera að spila frábæran handbolta.“
„Þeir eru með frábært lið,“ sagði Bjarni og benti á Egil Magnússon sem skoraði tvö mörk í röð undir lokin, eftir að staðan var jöfn, 26-26.
„Mér fannst hann góður í þessum leik. Hann var að mata mennina í kringum sig og var áræðinn. Stundum skorar maður bara ekki, en hann var áræðinn. Ef að það er að kvikna á honum, sérstaklega hérna [benti á höfuðið]…“ sagði Bjarni áður en Einar Andri greip orðið:
„Hann þarf að hafa meiri trú á sér. Ég vil sjá hann spila lengra frá vörninni því mér finnst hann oft fara í „contact“. Í staðinn ætti hann að skjóta meira á markið. Hann þarf aðeins meira sjálfstraust og trú á sér því hann er frábær leikmaður og sýndi það í lokin.“
![](https://www.visir.is/i/D0C17217792E7E01E63EDE4D60C88461EF183C3A38EF497183393B78F4B2CE4E_713x0.jpg)
Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.