Sérhönnuð skip danska félagsins eiga að flytja 12-24 þúsund tonn af koltvísýringi á vökvaformi hvert og eitt frá Norður-Evrópu. Þau ganga fyrir vistvænu eldsneyti og á kolefnissporið sem hlýst af flutningnum að nema 3-6% af þeim koltvísýringi sem verður fargað í Straumsvík fyrst um sinn en það á svo að fara lækkandi, að því er segir í tilkynningu frá Carbfix.
Móttöku- og förungarmiðstöð Carbfix byggir á tækni við að dæla uppleystum koltvísýringi niður í jörðina og binda hann þar til langs tíma. Hún er sögð verða sú fyrsta sinnar tegundar.
Byggja á miðstöðina, sem nefnist Coda Terminal, í þremur áföngum. Undirbúningur að fyrsta áfanga á að hefjast um mitt þetta ár með forhönnun og vinnu við leyfisferla. Rannsóknarboranir eiga að hefjast á næsta ári og rekstur árið 2025. Miðstöðin verði fullbyggð árið 2030.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kynnti sér Carbfix-verkefnið í Hellisheiðarvirkjun á fyrsta degi heimsóknar sinnar hingað til lands í gær.