Hingað til hefur öll umferð rafhlaupahjóla á akbrautum verið bönnuð og aðeins verið leyfilegt að aka þeim á gangstéttum og hjólareinum. Víða erlendis þar sem ekki er mikið um hjólastíga er umferð þeirra á götum þó leyfð.
Skýrsluhöfundunum finnst koma vel til greina að borgin leyfi umferð hjólanna á götum þar sem hámarkshraðinn er 30 eða lægri.
Stafrænar girðingar
Þá finnst þeim að nota ætti svokallaða stafræna girðingu til að lækka hraða rafhlaupahjóla á gangstéttum verslunargatna, þar sem margir gangandi vegfarendur eru á ferli. Eins og er mega þau ekki komast hraðar en 25 kílómetra á klukkustund. Skýrsluhöfundarnir benda til dæmis á þá leið sem farin er í Kaupmannahöfn en þar er hámarkshraði hlaupahjólanna ekki nema 6 kílómetrar á klukkustund á göngugötum.
Stafrænar girðingar eru þegar notaðar af hjólaleigunum með hjálp GPS-tækni til dæmis til að marka svæði þar sem bannað er að leggja hjólunum. Tæknin greinir þá ef hjólið er innan svæðis sem bannað er að leggja á og hindrar þann sem er á hjólinu í að gera það. Stafrænar girðingar hafa þó ekki verið notaðar til að hefta hraða hjólanna en möguleiki er á að það verði gert á næstunni.

13 ára aldurstakmark
Rafhlaupahjólin hafa notið gríðarlega vinsælda í borginni síðustu ár. Hjólum í einkaeigu hefur fjölgað mikið og samkvæmt skýrslunni má nú finna rafhlaupahjól á rúmlega tíunda hverju heimili í Reykjavík, eða 12 prósent heimila. 44 prósent landsmanna segjast þá hafa prófað rafhlaupahjól.
Aukinni notkun fylgja þó fleiri slys en sumarið 2020 leituðu 149 sér aðhlynningar á bráðamóttöku Landspítalans eftir slys á rafhlaupahjóli. Stóran hluta slysanna mátti rekja til ofsaaksturs og aksturs undir áhrifum. 45 prósent þeirra sem leituðu á bráðamóttöku voru undir 18 ára aldri.
Ekkert aldurstakmark er á notkun rafhlaupahjóla á Íslandi eins og er en hópurinn vill láta skoða hvort ástæða sé til að setja lágmarksaldur á notkun þeirra, til dæmis í 13 ára sem er sami aldur og fyrir létt bifhjól.