Um er að ræða þriðja útboðið hér á landi á rúmri viku en áður höfðu Íslandsbanki og flugfélagið Play ráðist í útboð.
Þar segir að nýi leikurinn verði mun stærri í sniðum en síðasti leikur, Starborne: Sovereign Space, sem gefinn var út á síðasta ári. Vefsvæði vegna útboðsins hefur verið opnað á síðu Arion banka, sem er umsjónaraðili útboðsins.
12,5 krónur á hlut
Boðnir verða til sölu að lágmarki 40 milljón hlutir í formi nýrra hlutabréfa í Solid Clouds en heimilt er að stækka grunnstærð útboðsins í allt að 58 milljónir hluta. Verð á hlut í útboðinu er 12,5 krónur á hlut.
Í útboðinu bjóðast tvær áskriftarleiðir. Tilboð undir 15 milljónum króna falla undir áskriftarbók A, en hærri tilboð í áskriftarbók B. Lágmarkstilboð verður 100 þúsund krónur.
Áætlað er að niðurstöður útboðsins verði tilkynntar þann 1. júlí næstkomandi. Afhendingardagur nýrra hluta og fyrsti viðskiptadagur á First North Iceland er áætlaður 12. júlí.
Möguleiki á skattaafslætti fyrir einstaklinga
Einstaklingar sem eru með skattalegt heimilisfesti á Íslandi og taka þátt í áskriftarbók A og fjárfesta fyrir að lágmarki 300 þúsund krónur uppfylla skilyrði um frádrátt frá tekjuskatts- og/eða fjármagnstekjuskattsstofni sínum fyrir allt að 75% af fjárfestingu sinni, að því gefnu að þeir eigi hlutabréfin í að lágmarki þrjú ár.
Í tilkynningunni segir að Solid Clouds hf. hafi fengið staðfestingu frá Ríkisskattstjóra með bréfi dagsettu 31. maí 2021 að einstaklingar sem fjárfesta í hlutafjáraukningu félagsins eigi rétt á frádrætti frá tekjum sbr. 1. tl. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að uppfylltum þeim skilyrðum sem þar er kveðið á um.
Frádráttur getur numið allt að 75% af fjárfestingu í hlutafjáraukningu fyrir einstaklingsfjárfesta sem eru með skattalegt heimilisfesti á Íslandi.
15% álag ef selt er innan þriggja ára
Fjárfesting einstaklings í félagi þarf að nema að lágmarki 300 þúsund krónum. Hámarks frádráttarheimild vegna fjárfestingar er 15 milljónir króna hjá einstaklingi og hámarksfrádráttur 11.250.000 krónur (tvöfalt hjá hjónum).
Einstaklingur þarf að eiga þau hlutabréf sem voru grundvöllur frádráttar í þrjú ár. Ef bréfin eru seld innan þriggja ára frá því fjárfestingin átti sér stað, verður upphaflegi frádrátturinn bakfærður með 15% álagi á söluári bréfanna.
Ef frádrátturinn er hærri en tekjuskattsstofn skattaðila að viðbættum fjármagnstekjum á almanaksári færist það sem umfram er milli ára þar til hann er fullnýttur, en þó ekki lengur en næstu þrjú ár. Það sem ónýtt er af frádráttarheimildinni að þremur árum liðnum fellur niður.