Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, greinir frá þessu í grein sem birtist á Vísi í morgun.
Hann segir að undirbúningur Hvammsvirkjunar hafi staðið í áratugi, eins og gjarnt sé með virkjanir. „Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort eða hvenær verður sótt um leyfi til að hefja framkvæmdir við gerð hennar. Það gæti orðið á næsta ári, að því gefnu að virkjunarleyfi liggi þá fyrir.“

Alls eru sjö vatnsaflsvirkjanir í Þjórsá og þverám hennar – Tungnaá og Köldukvísl – og hafa þrjár virkjanir, Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun, verið á teikniborðinu.
Þörf á grænni orku
Hörður nefnir í grein sinni að íslensk stjórnvöld hafi sett sér markmið sem kalli á aukna raforkuframleiðslu, þar sem Íslendingar ætli að vera búnir að losa sig við bensín og olíur árið 2050.
„[En] það gerist ekki nema við höfum næga græna orku í staðinn. Raforkukerfið okkar er nánast fullnýtt og brýn nauðsyn að efla það enn frekar,“ segir Hörður.

Á vef Landsvirkjunar segir að Hvammsvirkjun verði staðsett í neðri Þjórsá, um fimmtán kílómetra neðan við Búrfellsstöð.
„Hún mun nýta 32 metra fall árinnar frá Yrjaskeri ofan við bæinn Haga og niður fyrir Ölmóðsey ofan bæjarins Þjórsárholts. Vatni verður veitt inn í stöðvarhús í landi Hvamms en þaðan dregur virkjunin nafn sitt. Úr stöðvarhúsi fellur vatnið um jarðgöng, í frárennslisskurð og aftur út í farveg Þjórsár neðan við Ölmóðsey,“ segir um virkjunina.

Lón Hvammsvirkjunar heitir Hagalón og yrði um fjórir ferkílómetrar að flatarmáli. Hvammsvirkjun er hönnuð fyrir allt að 93 MW afl og verður árleg orkugeta allt að 720 GWst.