Nóttin var tíðindalítil í miðborginni ef marka má dagbók lögreglu. Óskað var eftir aðstoð inni á skemmtistað þar sem einstaklingur svaf ölvunarsvefni.
Þá voru fjórir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um að vera undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.
Þessi tíðindalitla nótt er talsverð breyting frá fyrri viku, þar sem lögreglan hafði í nægu að snúast. Nokkur slys urðu á fólki og þó nokkuð var um slagsmál.
Tilkynnt var um slagsmál þar sem aðili var vopnaður hníf. Þá voru hópslagsmál þar sem einn var vopnaður hníf og annar hamri. Æstur einstaklingur gekk um vopnaður golfkylfu og var gleri kastað í afturrúðu sjúkrabifreiðar. Þá var einstaklingur sem áreitti gesti skemmtistaðar og tilkynnt um átök í bifreið á ferð.
Fyrr í vikunni sakaði Ásgeir Guðmundsson, eigandi Röntgen Bar, lögregluna um að beita dagbókarfærslum til þess að þrýsta á styttri opnunartíma skemmtistaða.
Hann vill meina að staða mála sé stórlega ýkt í dagbókarfærslum lögreglunnar um helgar.
„Ég vill kannski gefa lítið fyrir það að miðbærinn hafi verið eins og stríðsástand síðustu daga. Þetta er bara gamla góða Reykjavíkur djammið. Lögreglan hefur gefið það út opinberlega að hún vilji stytta opnunartímann og hún beitir dagbókarfærslum til þess.“