Landsliðskonurnar Sara Rún Hinriksdóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir ætla báðar að reyna fyrir sig erlendis. Báðar eru þær jafnan byrjunarliðsmenn hjá íslenska landsliðinu.
Karfan segir frá vistaskiptum þeirra (Þóru hér og Söru hér) en þetta er mikill missir fyrir Haukaliðið sem hafði samið við Helenu Sverrisdóttur á dögunum og einnig fengið til sín hina frábæru Haiden Palmer frá Snæfelli.
Sara Rún hefur gert samning við rúmenska félagið Phoenix Constanta en liðið leikur í efstu deild. Sara kom til Hauka eftir áramót eftir að hafa spilað með Leicester í bresku deildinni.
Þóra Kristín er að fara í nám í Danmörku og ætlar að spila með AKS Falcon í dönsku úrvalsdeildinni.
Sara Rún og Þóra Kristín voru í risastórum hlutverkum hjá Haukaliðinu sem fóru alla leið í úrslitaeinvígið á móti Val. Sara Rún var kosin besti leikmaður deildarinnar og Þóra Kristín var einnig í fimm manna úrvalsliði hennar.
Sara Rún var með 16,0 stig, 7,9 fráköst og 4,1 stoðsendingu að meðaltali í 15 leikjum á Íslandsmótinu. Hún skoraði 17,2 stig í leik í úrslitakeppninni.
Þóra Kristín var með 9,0 stig, 5,1 frákast og 4,6 stoðsendingar að meðaltali í 27 leikjum á Íslandsmótinu.